Almannahagsmunir en ekki sérhagsmunir

Stundum er því fleygt að Viðreisn gangi eingöngu út á aðild Íslands að ESB. Viðreisn sé ekkert annað en sjálfstæðismenn sem klufu sig út úr „móðurflokknum“ vegna óánægju með stefnu flokksins í Evrópumálum.
Þetta er ekki bara einföldun – þetta er alrangt. Ekki var það sjálf Evrópustefna Sjálfstæðisflokksins sem leiddi til stofnunar Viðreisnar heldur voru það svik forystu flokksins á skýru loforði um að þjóðin fengi að ráða ferðinni í Evrópumálum. En vitanlega eru það ekki Evrópumálin ein sem skilja að Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn. Stefnur flokkanna eru ólíkar á mörgum sviðum. Má þar nefna sjávarútveg, landbúnað, jöfnun atkvæðaréttar sem snýst um mannréttindi, neytendamál, umhverfismál, samgöngumál, jú, og reyndar líka utanríkismál og afstöðu til samstarfs við lýðræðisþjóðir í okkar heimshluta.
Þá er misskilningur þeirra, sem líta á Viðreisn sem hreinan klofning óánægðra sjálfstæðismanna, mikill. Viðreisn er frjálslyndur flokkur sem sækir fylgi sitt víða – Viðreisn er eini frjálslyndi flokkur landsins sem er hægra megin við miðju. Óhætt er að fullyrða að Viðreisn sæki fylgi sitt til Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar, Framsóknar og Pírata auk þess sem margir kjósa Viðreisn sem áður áttu erfitt með að samsvara sig einhverjum flokki.
Stóri munurinn á Viðreisn og Sjálfstæðisflokknum er sá að Viðreisn vinnur út frá heildarhagsmunum þjóðarinnar en Sjálfstæðisflokkurinn vinnur út frá sérhagsmunum örfárra sterkra og eignamikilla aðila í sjávarútvegi. Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn gætu hæglega fundið samstarfsfleti á sviði efnahags-, skatta- og atvinnumála – þótt mikið beri í milli varðandi auðlindina í sjónum.
Segja má að stóra átakalínan í íslenskum stjórnmálum um þessar mundir kristallist í þeim mismunandi áherslum sem felast annars vegar í frjálslyndi og hins vegar íhaldssemi – annars vegar í baráttu fyrir almannahagsmunum og hins vegar baráttu fyrir þröngum sérhagsmunum.
Haldi ríkisstjórnin velli í kosningunum 25. september er líklegt að hún starfi áfram óbreytt. Falli hún er líklegt að Miðflokkurinn yrði kallaður inn sem hækja. Raunar má ekki útiloka að Sósíalistaflokkurinn færi inn í stjórnina. Talsmaður flokksins talar digurbarkalega um að engar málamiðlanir verði gerðar og ekki verði unnið með Sjálfstæðisflokknum, en þetta yrði ekki í fyrsta sinn sem stjórnamálaflokkur sviki gefin loforð. Og ekki heldur í fyrsta sinn sem talsmaður Sósíalistaflokksins skipti um skoðun.
Möguleikar Viðreisnar á að komast í ríkisstjórn til að berjast fyrir stefnumálum sínum felast aðallega í því að ríkistjórnin falli og Framsóknarflokkurinn velji að fá til liðs við sig Samfylkinguna, Pírata og Viðreisn í miðjustjórn. Til að svo geti orðið þarf vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur að falla í kosningunum.
- Ólafur Arnarson