Alma Möller minnist Ólafs: „Það var einmitt eitt af ráðunum sem hann gaf mér“

Alma D. Möller landlæknir minnist Ólafs Ólafssonar, fyrrverandi landlæknis, með hlýjum orðum í Morgunblaðinu í dag en Ólafur lést þann 3. maí síðastliðinn, 93 ára að aldri. Ólafur var landlæknir frá 1972 til 1998, eða í rúman aldarfjórðung og var hann í miklum metum hjá þeim sem hann þekktu.

Alma segir að Ólafur hafi verið vinnusamur maður og framsýnn og tekist með góðri framgöngu að efla og stækka embætti landlæknis með breyttum áherslum.

„Fyrstu kynni mín af Ólafi voru þegar hann sem landlæknir kenndi okkur í læknanáminu, ég minnist hve það var skemmtilegt í þeim kennslustundum. Við kynntumst svo undir erfiðum kringumstæðum fyrir um átta árum og ræddum oft saman eftir það. Með okkur tókst vinátta enda Ólafur fljótur að mynda tengsl við fólk,“ segir Alma.

Hún segir að eitt af hennar fyrstu verkum eftir að hafa verið skipuð landlæknir hafi verið að heimsækja þennan mikla heiðursmann og þiggja hjá honum góð ráð um þetta mikilvæga starf.

„Ólafur þótti óvenjulegur embættismaður sem fór ótroðnar slóðir í störfum sínum. Hann var eldhugi og baráttumaður sem var ekki fyrir að gefa eftir. Ólafur var maður athafna og lét sér engin málefni óviðkomandi. Það sem þótti hvað mest einkennandi í fari Ólafs, var góður skilningur hans, viðmót og umhyggja gagnvart þeim sem á einhvern hátt stóðu höllum fæti í lífinu, hann mátti ekkert aumt sjá og hjálpsemi hans í slíkum tilvikum var við brugðið. Hann lýsti því enda sjálfur að manneskjan væri hans aðaláhugamál.“

Alma segir að Ólafur hafi enn fremur verið mikill húmoristi, ætíð með glampa í augum og þótt skemmtilegur ferðafélagi.

„Það var gantast með að visst skipulagsleysi bætti hann upp með ýmsum góðum eiginleikum. Hann hafði til dæmis lag á að velja sér ráðgjafa, sem voru ólíkir honum sjálfum, gjarnan íhugulir, varkárir og jarðbundnir eins og samstarfsmaður lýsti. En það var einmitt eitt af ráðunum sem hann gaf mér; það mikilvægasta í slíku starfi væri að fá með sér gott fólk.“

Alma segir að til séu margar sögur af Ólafi, sögur sem hafa flogið og lifað, ekki síst fyrir tilstuðlan annars vinar hennar, Jóhannesar Kristjánssonar eftirhermu.

„Eftir að Ólafur lét af starfi landlæknis hélt hann áfram að láta sig heilbrigðis- og velferðarmál varða. Meðal annars í starfi eldri borgara og með viðtölum og greinaskrifum í blöð en hann var ólatur að stinga niður penna. En nú er þessi góði og eftirminnilegi maður genginn og ég votta honum virðingu og þakklæti fyrir mína hönd og embættis landlæknis. Börnum hans og öðrum ástvinum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.“

Útför Ólafs fer fram frá Hallgrímskirkju í dag klukkan 13.