Alma fékk erfitt sím­tal: „Af hverju?”, öskraði hún á mig og brast svo í há­grát“

„Ég fékk sím­tal í nótt þar sem dóttir hafði verið að leita að pabba sínum,“ segir Alma Haf­steins­dóttir í grein sem vakið hefur tals­verða at­hygli. Alma, sem er fíkni- og fjöl­skyldu­mark­þjálfi hjá spila­vandi.is, skrifar um­rædda grein á Vísi þar sem hún segir frá erfiðu sím­tali sem hún fékk.

„Pabbinn hafði farið út um kvöld­matar­leytið og hafði ekki skilað sér heim. Dóttirin fór og leitaði að honum og kom að honum við spila­kassa. Í sím­talinu var hún há­grátandi með ekka. Pabbinn hafði ekkert spilað meðan spila­kassarnir voru lokaðir. Hann hafði verið svo dug­legur að leika við afa­börnin sín síðustu vikur og svaraði alltaf í símann þegar hún hringdi. Hann var svo glaður og góður. Hann fór meira að segja með afa­börnin í göngu­túra og keypti ís handa þeim. Það hafði ekki gerst lengi, hann átti aldrei pening eða eirð í sér. Dóttirin sá í hillingum að gæða­stundum barna hennar með afanum færi fjölgandi, fyrst hann var hættur að spila,“ segir Alma en eins og kunnugt er voru spila­salir lokaðir meðan á sam­komu­banni stóð yfir. Þeir hafa nú opnað aftur.

Í grein sinni segir Alma að maðurinn í spila­salnum hafi ekki viljað hjálpa henni, faðir hennar væri þarna af fúsum og frjálsum vilja.

„Dóttirin sagði mér að pabbi sinn hefði ein­mitt sagt um síðustu helgi hvað það væri gott að spila­kassar og spila­salir væru lokaðir. Hún vissi samt að þeir höfðu þegar opnað, en vildi ekki láta hann vita af því. Hún var svo hrædd um að missa hann aftur,“ segir Alma sem vísar svo í orð dótturinnar.

„Af hverju voru þeir að opna Alma? Af hverju?”, öskraði hún á mig og brast svo í há­grát. “Pabbi er alveg farinn – AFTUR. Hvernig á ég að út­skýra fyrir krökkunum að afi sé byrjaður að spila aftur? Hvað á ég að segja þeim? Get ég hringt í lög­regluna og beðið þá að sækja hann? Hvað á ég að gera?”

Alma segir að ör­væntingin og van­mátturinn skeri í sálina. „Hvernig á ég að út­skýra fyrir henni að við erum að gera allt sem við getum en Rauði Krossinn, Lands­björg, SÁÁ og Há­skóli Ís­lands þurfi að fá blóð­peningana sína, peninga pabba hennar!“

Alma segir að eig­endur Ís­lands­spila megi vita þegar þeir telja peningana úr spila­kössunum að „þeir eru vættir með tárum barna­barnanna sem sjá á eftir afa sínum í hyl­dýpi spila­fíknarinnar“ eins og Alma orðar það.