Allt logar innan Samfylkingar: Meint smölun Jóhanns Páls og atlagan gegn Ágústi Ólafi

18. janúar 2021
11:55
Fréttir & pistlar

Allt logar stafna á milli innan Samfylkingarinnar eftir skoðanakönnun flokksins í Reykjavík í desember. Fréttablaðið greindi frá því fyrir helgi hverjir skipuðu sér í fimm efstu sæti í könnunni. Samkvæmt heimildum blaðsins voru það þingkonurnar Helga Vala Helgadóttir og Rósa Björk Brynjólfsdóttir auk nýliðans Kristrúnu Frostadóttur, hagfræðings.

Þá náðu tveir einstaklingar úr ungliðahreyfingu flokksins inn á topp fimm listann, sem ætti að skila þingsæti. Annars vegar Ragna Sigurðardóttir, borgarfulltrúi og forseti Ungra Jafnaðarmanna sem og Jóhann Páll Jóhannsson, sem hætti farsælum blaðamannaferli á dögunum til að einbeita sér að pólitíkinni.

Það er ekki síst innkoma Jóhanns Páls sem kveikt í ófriðarbáli því samkvæmt heimildum Hringbrautar er mikil óánægja meðal stuðningsmanna Ágústs Ólafs Ágústssonar um meinta smölun Jóhanns Páls og fylgismanna hans í flokkinn rétt fyrir skoðanakönnunina. Sú smölun er talin hafa gagnast báðum ungliðunum vel.

Í frétt á Vísi fyrr í dag er fjallað um illdeilurnar sem nú geisa innan flokksins. Þar kom fram að Birgir Dýrfjörð, formaður landsmálafélagsins Rósarinnar, hefur sagt sig frá uppstillinganefnd Samfylkingarinnar eftir erfiðan fund um helgina. Var Birgi svo ofboðið að hann gekk á dyr.

„Það var komin svo mikil illska í þetta að ég þoldi ekki við og fór út. Þetta var orðið svo ljótt og illt að ég gat ekki setið í þessu hópi lengur,“ hefur Vísir eftir Birgi.

Illskan sem Birgir vísar til beinist gegn Ágústi Ólafi Ágústssyni, þingmanni Samfylkingarinnar. Eindregin krafa er um frá ungliðum Samfylkingarinnar að Ágúst Ólafur víki eftir að hafa gengist við kynferðislegri áreitni og leitað sér hjálpar hjá SÁÁ vegna áfengisvanda.

Kemur fram í frétt Vísis að skömmu áður en Birgir yfirgaf fundinn hafi hann haldið skammarræðu sem snerist um hvort að að Samfylkingin ætlaði að standa fyrir því að þeim sem orðið hefur á vegna áfengissjúkdóms síns, og hefðu gert eitthvað í sínum málum, ættu ekki afturkvæmt?

Samkvæmt heimildum Hringbrautar hefur sumt Samfylkingarfólk áhyggjur af því að öfgafeminísk sjónarmið séu að ryðja sér rúms innan flokksins og þau sjónarmið kristallist í miskunnarleysinu gagnvart Ágústi Ólafi. Hafa margir áhyggjur af því að slíkir öfgar séu ekki líklegir til að falla í kramið hjá stórum hópi kjósenda.

Þess má geta að áður hafa ásakanir um smölun gert allt vitlaust innan Samfylkingarinnar en það var árið 2005 þegar Ágúst Ólafur hreppti varaformannsembætti flokksins. Talið var að ókeypis pizzur og rútuferðir fyrir ungliða hefðu þar skipt sköpum en Ágúst Ólafur vísaði öllum ásökunum á bug á sínum tíma.