„Allt í einu var ég farin að fara heim með ó­kunnugum“

26. október 2020
14:35
Fréttir & pistlar

Hjúkrunar­fræðingurinn Elín Tryggva­dóttir skrifaði færslu á Face­book á dögunum sem vakið hefur mikla kátínu hjá fólki. Það er í raun ó­þarfi að hafa mörg orð um færsluna en við hvetjum les­endur til að lesa hana til enda.

„Síðasta haust hefði mig aldrei grunað hvað nýtt ár bæri í skauti sér. Síðasta haust lifði ég ró­legu lífi. Ég lifði sátt meðal manna og dýra bara “minding my own business” eins og alla aðra daga.

Ég var dá­lítið feimin, bjó í friði og ró úti á landi en svo flutti ég í borg, risa stóra borg. En þá gerðist það. Eitt­hvað vaknaði innan í mér. Það var eins og ég lifnaði við og ég byrjaði að fara meira út og njóta lífsins. Ég fór í garðana og ég fór á markaðinn og svo allt í einu var ég farinn að fara heim með ó­kunnugum. Ég sem hafði aldrei verið með neinum var bara farin að gerast nær­göngul við hvern sem ég hitti.

Þetta byrjaði ró­lega. Fyrst var ég bara með einum manni en þið vitið hvernig það er þegar manni finnst eitt­hvað gott, maður vill meira og meira og þeir urðu fleiri og fleiri. Ég hitti menn á veitinga­húsum og á börum, í skíða­brekkum og á hótelum.

Ég hitti meira að segja appel­sínu­gulan mann í Hvíta húsinu. Hann var hálf­viti. Núna er litla ég orðin valda­meiri en hálf­vitinn. Ég tek mann­kynið hreðja­taki, einn í einu. Árið er mitt. Það eina sem gæti skyggt á gleðina væri eld­gos...en það er aldrei að fara að gerast.

Árið 2020 séð með augum kórónu­veiru.“