Alfreð lýsir því hvernig ástin kom til hans: „Það var svona sem þetta byrjaði, al­gjör­lega ó­vænt“

Alfreð Gíslason, einn reynslumesti handboltaþjálfari okkar Íslendinga og núverandi landsliðsþjálfari Þýskalands, er í einlægu viðtali við þýska blaðið Bild.

Alfreð hefur verið að gera góða hluti með Þjóðverja á yfirstandandi heimsmeistaramóti en í viðtalinu ræðir hann meðal annars um hvernig ástin fann hann á nýjan leik. Fréttablaðið fjallaði um viðtalið í gærkvöldi.

Alfreð hafði áður gengið í gegnum afar erfiða tíma í tengslum við veikindi og frá­fall eigin­konu sinnar, Köru Guð­rúnar Melsteð sem lést undir lok maí árið 2021 eftir bar­áttu við krabba­mein. Eins og bent er á í umfjöllun Fréttablaðsins var það ekki á döfinni hjá Alfreð að finna ástina á nýjan leik en lífið hafði annað í huga. Alfreð fann nefnilega ástina í örmum Hrundar Gunnsteinsdóttur.

„Þetta gerðist bara,“ segir hann í viðtalinu og lýsir því hvernig Hrund, sem er fram­kvæmda­stjóri Festu, hafi haft sam­band við hann eftir við­tal sem Al­freð veitti Snorra Björns­syni í hlað­varps­þætti þess síðar­nefnda.

„Hún (Hrund) skrifaði mér og bað um við­tal við mig. Ég sagði við hana að næst þegar að ég yrði á Ís­landi gæti ég svarað hennar spurningum,“ segir Al­freð. Á meðan á sam­tali þeirra stóð kom í ljós að faðir Hrundar, Gunn­steinn Skúla­son, fyrrum hand­bolta­kempa, hafi verið að­stoðar­þjálfari lands­liðsins í fyrsta lands­liðs­verk­efni Al­freðs sem leik­maður.

„Ég veitti henni við­tal og var á leið til Akur­eyrar að hitta fjöl­skylduna mína degi eftir það. Ég sagðist myndu koma aftur í næstu viku og sagði að við ættum þá að borða saman. Það var svona sem þetta byrjaði, al­gjör­lega ó­vænt.“