Alexandra fyrsta transkonan til að verða forseti borgarstjórnar

Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata, verður næsti forseti borgarstjórnar Reykjavíkur. Alexandra tekur formlega við embætti forseta í lok næsta fundar borgarstjórnar, þriðjudaginn 18. maí, og verður þar með fyrsta transkonan í sögunni til að gegna embættinu.

Pawel Bartozek, sem hefur verið forseti borgarstjórnar frá 18. júní 2019, tekur við formennsku í skipulags- og samgönguráði en fyrrverandi formaður ráðsins, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, sagði skilið við stjórnmálin í upphafi mánaðar. Alexandra skipaði þriðja sæti á lista Pírata fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar og hefur gegnt stöðu varaborgarfulltrúa á kjörtímabilinu. Það sem eftir lifir kjörtímabils tekur Alexandra sæti borgarfulltrúa í stað Sigurborgar.

Alexandra Briem er þriðji forseti borgarstjórnar á kjörtímabilinu. Þegar nýr meirihluti var kynntur í júní 2018 var tilkynnt að Dóra Björt Guðjónsdóttir yrði forseti borgarstjórnar fyrsta árið, áður en Pawel tæki við embættinu. Með brotthvarfi Sigurborgar um mánaðamótin var talið einsýnt að Pawel yrði formaður skipulags- og samgönguráðs, hvar hann hefur verið varaformaður á kjörtímabilinu, og að Alexandra tæki við stöðu forseta borgarstjórnar í hans stað.

„Píratar eru raunar ekki uppteknir af titlatogi eða embættum, og ég er það ekki mjög sjálf. En ég er meðvituð um hvað þessir hlutir tákna. Traustið og ábyrgðina sem þeir eru til marks um. Ég mun gera mitt allra besta til að standa undir þessu trausti og vinna þetta starf af öllum mínum mætti, fyrir hönd allra borgarbúa,“ segir Alexandra í færslu á Facebook.

„Umræðan í borgarstjórn getur verið harkaleg. Langflest sem starfa í pólitík eru þar af heilindum og góðum hug, en geta verið gífurlega ósammála um það hvað sé rétt eða réttlætanlegt. Ég mun leggja kapp á það að umræðan sé málefnaleg, að gagnrýni og harka snúi frekar að málefnum, hugmyndafræði og eftir atvikum flokkum, en að einstaklingum og persónum þeirra.“

Hún segir það mikilvægt að vera fyrsta transkonan í þessu embætti. „Ég er fyrsta transkonan sem tekur sæti sem borgarfulltrúi og sem forseti borgarstjórnar og það er jú sögulegt og mikilvægt. Alveg eins og það var mikilvægt að Dóra Björt var yngsti forseti borgarstjórnar, og það var mikilvægt að Pawel var fyrsti forseti borgarstjórnar sem kom til Íslands sem innflytjandi,“ segir Alexandra.

„Síðan ég var barn og kom í Ráðhúsið að heimsækja ömmu Sylvíu í vinnuna í móttökunni, hef ég verið heilluð af þessu starfi og þessu húsi. Ég hef örugglega verið eina tíu ára barnið sem bað um að fá að koma og horfa á borgarstjórnarfund, og það blundaði alltaf í mér að þetta væri eitthvað mikilvægt. Eitthvað sem þyrfti að gera vel og af heilindum og eitthvað sem ég yrði stolt af ef mér gæfist tækifæri til. Nú hefur mér gefist þetta tækifæri og ég lofa ykkur og barninu sem ég var að ég mun sinna starfinu vel og af heilindum, fyrir hönd íbúa borgarinnar.“