Aldís minnist Reynis og Ninnu: „Þetta er reiðarslag“ – Skemmtileg hjón sem kvöddu alltof snemma

„Það er sorg í bænum okkar. Við minnumst skemmtilegra hjóna, góðra vina, sem kvöddu svo alltof snemma. Hugur okkar er hjá sonum þeirra þremur, fjölskyldum þeirra, systkinum og öðrum ættingjum og vinum.“

Þetta sagði Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði í gæ,r en klukkan 20 í gærkvöldi kveiktu Hvergerðingar á kertum úti í garði til að minnast hjónanna sem létust af völdum kórónuveirunnar. Hjónin hétu Reynir Mar Guðmundsson og Jóninna Margrét Pétursdóttir. Þá sagði Aldís einnig:

„ ... um leið og við sendum innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra sem hafið misst svo mikið.“

Í umfjöllun Vísis segir að mikil sorg ríki í Hveragerði vegna andláts Reynis og Ninnu eins og hún var gjarnan kölluð. Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 nú í kvöld sagði Aldís bæjarstjóri að mikill samhugur ríki í bænum.

Reynir Mar og Jóninna, alltaf kölluð Ninna. Reynir vann í mörg ár hjá Kjörís við bílaviðgerðir. Ninna starfaði hjá Kjörís og seinna við ýmis störf hjá Dvalarheimilinu Ási þar til hún lét af störfum sökum aldurs.

„Ég átti ekki von á að svona gæti gerst og þetta er reiðarslag,“ sagði Aldís og bætti við að Hveragerði væri lítið samfélag þar sem fólki þyki vænt um hvort annað. Þá beindi Aldís þessum skilaboðum til Hvergerðinga:

„Ég held að það sé mikilvægt að við hugsum hlýlega til þeirra sem eiga núna um sárt að binda en hugsum jafnframt um þá sem næstir okkar eru og fylgjumst með nágrönnum og vinum og förum eftir reglunum, hlýðum Víði“.

Hér má sjá viðtal stöðvar 2 við Aldísi.