Áhyggjufullur yfir brotthvarfi Helga: „Ef útvarpsráð væri með rænu væri neyðarfundur þar í dag“

Gunnar Smári Egilsson, formaður Sósíalistataflokksins og fjölmiðlamaður til fjölda ára, lýsir yfir áhyggjum af stöðunni á RÚV eftir brotthvarf fréttamannsins Helga Seljan.

Helgi tilkynnti samstarfsfólki sínu í dag að hann hefði sagt upp störfum og skömmu síðar tilkynnti Stundin að hann hefði verið ráðinn þangað.

Þetta er skellur fyrir RÚV enda Helgi verðlaunaður rannsóknarblaðamaður og einn sá besti í faginu.

Að undanförnu hefur fjöldi öflugra fréttamanna yfirgefið RÚV. Aðalsteinn Kjartansson hætti í fyrravor og réði sig á Stundina, Einar Þorsteinsson sagði upp störfum á dögunum og þá hætti Rakel Þorbergsdóttir sem fréttastjóri RÚV um áramótin. Nú bætist Helgi Seljan í öflugan hóp fréttamanna sem stokkið hafa frá borði.

Gunnar Smári gerir málið að umtalsefni í Facebook-hópi Sósíalistaflokksins þar sem hann gagnrýnir RÚV fyrir að geta ekki varið og stutt sitt besta fólk.

„Hrekur það frá sér. Eftir situr fólk sem beygir sig undir ægivald Valhallar. Ef útvarpsráð væri með rænu væri neyðarfundur þar í dag,“ segir hann.