Á­hyggju­efni að fólk vilji sleppa kosningum vegna ó­heppi­legra fram­bjóð­enda

26. maí 2020
13:36
Fréttir & pistlar

„Það er á­hyggju­efni að hér á landi sé talað um að á­stæða sé til að sleppa for­seta­kosningum, hvort sem á­stæðan sem gefin er sé kostnaður, ó­heppi­legir fram­bjóð­endur eða vin­sældir nú­verandi for­seta.“

Þetta segir Björn Berg Gunnars­son, deildar­stjóri Greiningar og fræðslu Ís­lands­banka, í pistli sem birtist á vef Vísis í morgun.

Björn Berg hefur skrifað mikið um fjár­mál ein­stak­linga og heimila en í dag vendir hann kvæði sínu í kross og skrifar at­hyglis­verðan pistil um lýð­ræðið og væntan­legar for­seta­kosningar.

Hvattur til að hætta við framboð

Eins og flestum er kunnugt stefnir í ein­vígi milli Guðna Th. Jóhannes­sonar, sitjandi for­seta, og Guð­mundar Frank­líns Jóns­sonar sem for­seta­em­bættið. Ýmsir hafa viljað að Guð­mundur Frank­lín hrein­lega hætti við fram­boð til að spara ríkinu mikinn kostnað á meðan aðrir segja að Guðni Th. sé svo ó­um­deildur að ó­þarfi sé að ganga til kosninga.

Þó Björn nefni þá tvo sem væntan­lega verða á kjör­seðlinum er ljóst hvað hann á við.

„Réttur okkar til að deila um og tjá skoðun á full­trúum okkar og leið­togum er með þeim mikil­vægari sem við eigum. Slíkan rétt hafa ekki allir og metur The Economist stöðu lýð­ræðis í heiminum nú þá verstu frá árinu 2006, en einungis 4,5% jarðar­búa búa við fullt lýð­ræði og ríf­lega þriðjungur býr í löndum þar sem al­menningur hefur engin á­hrif á hvernig þeim er stjórnað,“ segir Björn í grein sinni.

Hann segir að í framan­greindum löndum fái fólk ekki tæki­færi til að láta með form­legum hætti reyna á full­yrðingar sumra um að leið­togarnir séu ó­um­deildir.

„Þar þætti lýð­ræðis­sinnum væntan­lega ekki til­töku­mál að inn á kjör­seðilinn læddist einn og einn kverúlan­t sem við fyrstu sýn virðist eygja litla sigur­von eða að hart væri í ári og kosningar dýrar. Slíkt þætti tæp­lega til­efni til að flauta kosningarnar af, enda rétturinn til að tjá pólitískar skoðanir sínar um­tals­vert dýr­mætari en svo.“

Góð kaup þrátt fyrir allt

Björn segir á­hyggju­efni að talað sé um að sleppa for­seta­kosningum, hvort sem á­stæðan er sögð vera kostnaður, ó­heppi­legir fram­bjóð­endur eða vin­sældir nú­verandi for­seta.

„Það kostar vissu­lega 300-400 milljónir króna að kjósa í júní en það eru góð kaup, þrátt fyrir allt. Út­færslu­at­riði á borð við þann fjölda með­mæla sem safna þarf fyrir fram­boð er um að gera að ráðast í og laga að sam­tímanum áður en við göngum næst að kjör­kössunum, en í stóra sam­henginu skiptir það sára­litlu máli.“

Björn endar pistilinn á þessum orðum:

„Við skulum ekki gefa okkur að al­menn sátt sé um full­trúa okkar og þeir séu ó­um­deildir. Skoðana­kannanir og full­yrðingar annarra koma aldrei í staðinn fyrir raun­veru­lega þátt­töku í frjálsum kosningum. Vonandi verður það á ein­hverjum tíma­punkti ó­um­deilt.“