Ágústa Eva: „Djöfull er ég pirruð!“ - Vildi loka landinu – Heimskulegt að fólk sé að fara í skemmtiferðir

„Djöfull er ég pirruð! Auðvitað þurftum við bara að bíða eftir að smit bærist til landsins. Sorry en ég vil helst bara loka landinu asap.“

Þetta segir söng- og leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir á Facebook í ljósi þeirra frétta að Íslendingur hafi greinst með veiruna. Ágústa Eva er á sömu línu og Inga Sæland formaður Flokks fólksins og segir að loka hafi átt landinu. Þá gagnrýnir Ágústa að Íslendingar séu að ferðast erlendis á sama tíma og veiran hefur herjað á hin ýmsu Evrópulönd.

Fjörugar umræður eiga sér stað á Facebook síðu leikkonunnar um málið. Þar segir einn notandi samskiptamiðilsins að það myndi kosta þjóðarbúið mikið að loka fyrir allan inn og útflutning. Ágústa Eva svarar:

„Það færi ansi margt á hliðina en það er líka mjög alvarlegt að fá COVID19 hingað, fólk smitast trekk í trekk og fólk er bæði að veikjast og deyja og það lítur út fyrir að sá möguleiki sé fyrir hendi að við ítrekað smit veikist ónæmiskerfið.“

Þá bætir Ágústa Eva við að einnig kosti þjóðarbúið mikið náist ekki að hefta útbreiðslu veirunnar hér á landi. Hún segir að lokum:

„Ótrúlega heimskulegt að fólk sé að fara í skemmtiferðir erlendis undir þessum kringumstæðum.“