Ágústa Eva berst gegn bólusetningum barna: „Nú eru „samsæriskenningarnar“ að verða að veruleika

Tónlistarkonan og leikkonan Ágústa Eva Erlendsdóttir hélt ræðu á Austurvelli í gær þar sem samtökin Frelsi og ábyrgð stóðu fyrir svokallaðri Friðargöngu. Ágústa hefur látið nokkuð til sín taka í umræðunni um Covid-19 og hefur hún til að mynda talað gegn bólusetningum barna.

Mót­mælin voru skipu­lögð í sam­starfi við sam­tökin Worldwi­de Demonstration sem hafa gagn­rýnt harð­lega sótt­varna­að­gerðir og bólu­setningar.

Ágústa sagði meðal annars í ræðu sinni að frelsi og sjálf­stæði Ís­lendinga væri ógnað og bar mót­mælin saman við bús­á­halda­byltinguna árið 2008. Þá setti hún einnig spurningar­merki við gagn­semi bólu­efna.

DV birti brot úr ræðu Ágústu Evu og sagði hún meðal annars:

„Að þekkja rauðu ljósin þegar vegið er að frelsi manneskjunnar, hvort sem er í litlu eða stóru samhengi, þá ert það alltaf á endanum þú sem þarft að svara fyrir þínar ákvarðanir. Við þekkjum öll einkenni heimilisofbeldis. Einkennin eru þau sömu og koma fram í ríkjum og samfélögum sem eru óheilbrigð og stuðla að vondri útkomu yfir höfuð, fyrir alla. Einkennin eru frelsissvipting, einokun, leyndarmál, yfirhylming, stjórnun, einangrun frá öðru sem gæti haft það sem kallað er „neikvæð áhrif á þig“ í litlu samhengi fjölskylda og vina. Í stóru samhengi er það upplýsingaofbeldi eins og til dæmis í Norður-Kóreu,“ sagði hún og hélt áfram:

„Svo eru refsingar, félagslegar, fólk er útskúfað, dregið í dilka, talað niður til fólks og annað fólk dregið í sandinum sem viðvörun um afleiðingar þess að óhlýðnast. Í okkar samfélagi myndi það vera að draga upp annarlega mynd af fólki sem eru uppljóstrarar eða tala hátt um sannleikann. Ég gæti lengi haldið áfram með þennan samanburð en fólk er almennt ekki til í að útskúfanir og þvinganir og kúganir séu partur af þeirra tilveru. Þetta er til dæmis ein speglunin sem ég hélt á lofti í dag,“ segir hún.

Ágústa Eva deildi frétt DV á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi og sagði í færslu sinni:

„Nú eru "samsæriskenningarnar" að verða að veruleika. Bretland er hætt í covid19 spilinu með öllu. Hagstofa Bretlands (ONS) hefur opinberað sínar rannsóknir sem sína fram á að 90% af því fólki sem hefur látist með covid greiningu hafði undirlyggjandi sjúkdóma. Heilbrigðisyfirvöld í Skotlandi var einnig að gefa út skýrslu sem segir skýrt að fullbólusettir eru líklegri til að deyja með covid19 en þeir sem eru óbólusettir. Lukkulega erum við ekki enn sem komið er með skert upplýsingaflæði erlendis frá eins og er við líði annarstaðar í kúguðum löndum. Stöndum vörð um lýðræðið, sjálfstæðið og hvert annað. Það er einfaldlega skylda okkar.“