Ágúst spyr stjórnar­liða: Af hverju var þetta ekki gert?

Ágúst Ólafur Ágústs­son, þing­maður Sam­fylkingarinnar, hefur varpað fram sjö spurningum til stjórnar­liða nú þegar kórónu­veirufaldurinn geisar.

Eins og greint var frá í vikunni lagði stjórnar­and­staðan fram ýmsar til­lögur til við­bótar við þær efna-hags¬að¬gerðir sem ríkis¬stjórnin lagði fram. Ágúst Ólafur veltir þessu fyrir sér og segir að auð­velt hefði verið að sam­þykkja þessar til­lögur og aukin­heldur hefðu þær ekki sett neitt á hliðina.

Spurningarnar eru svo­hljóðandi:

  1. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn fyrir einungis þremur dögum gegn til­lögum í þinginu um sér­stakar á­lags­greiðslur til starfs­fólks í heil­brigðis- og fé­lags­þjónustu vegna um­önnunar Co­vid-smitaðra sjúk­linga? Af hverju eru meira að segja þær vakta­greiðslur sem voru nú þegar hjá hjúkrunar­fræðingum látnar falla núna niður, af öllum tímum? Og af hverju er ekki búið að semja við heil­brigðis­stéttir?
  2. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn gegn til­lögu á Al­þingi um aukinn stuðning við fjöl­skyldur lang­veikra barna sem hafa orðið fyrir tekju­tapi vegna far­aldursins?
  3. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn nú gegn ein­greiðslu til eldri borgara eins og ör­yrkjar fá?
  4. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn á mánu­daginn sl. gegn til­lögu um aukna fjár­muni til ný­sköpunar, lista­fólks og í­þrótta­starfs en sú starf­semi er lömuð vegna far­aldursins?
  5. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn gegn til­lögum um frekari flýtingu mann­afls­frekra fram­kvæmda. s.s. við Reykja­nes­braut, Suður­lands­veg, Vestur­lands­veg, Akur­eyrar­flug­völl og á höfuð­borgar­svæðinu?
  6. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn gegn til­lögum um aukið fé til fatlaðs fólks, fólks á leigu­markaði og SÁÁ en tekjur þeirra hafa hrunið vegna far­aldursins?
  7. Af hverju kusu stjórnar­þing­menn í þessari viku gegn lækkun tryggingar­gjalds á lítil fyrir­tæki og gegn auknu fé til hjúkrunar­rýma?

Ágúst Ólafur segir að allt séu þetta til­lögur sem hefði verið auð­velt að sam­þykkja. Þá séu þær þannig úr garði gerðar að þær hefðu ekki sett þjóð­fé­lagið á hliðina.

„Þvert á móti eru þetta til­lögur sem eru bráð­nauð­syn­legar núna, ekki síst í ljósi þess að að­gerðar­pakki ríkis­stjórnarinnar er allt að helmingi lægri en hjá ná­granna­þjóðum okkar. Af hverju er ekki gert meira núna fyrst stjórnar­liðar tala um að gera meira? Af hverju?“