Ágúst Ólafur biður fólk um að hugsa um sorg þessara barna

Ágúst Ólafur Ágústsson, fyrrverandi þingmaður, segist vona að ríkið taki virkari þátt í að greiða kostnað þeirra barna sem þurfa á tannréttingum að halda.

Í Fréttablaðinu í dag er ítarleg fréttaskýring um börnin sem hættu að brosa. Í fréttinni segir meðal annars:

„Sprengja getur fallið á efnahag heimila ef börn þurfa spangir. Þjónusta sem áður var ókeypis kostar nú milljónir. Styrkur frá sjúkratryggingum hefur staðið í stað um áratugabil. Mörg börn fá ekki meðhöndlun og læra að lifa með lokaðan munninn.“

Síðasta málið sem Ágúst Ólafur útbjó og lagði fram á Alþingi áður en hann hætti þar var einmitt um gjaldfrjálsar tannréttingar barna. Ágúst Ólafur kveðst virkilega stoltur af þessu máli.

„Tannréttingar barna geta kostað allt að 1-2 milljónum kr. sem foreldrar þurfa að greiða úr eigin vasa. Það er augljóst að börnum er mismunað eftir efnahag foreldra sinna í slíku kerfi. Ég vildi breyta þessu,“ segir Ágúst Ólafur og vísar í umfjöllun Fréttablaðsins. Hann höfðar svo til samvisku þjóðarinnar.

„Annars vil ég biðja ykkur um að hugsa um sorg þess barns sem fær ekki sömu heilbrigðisþjónustu og önnur börn, heilbrigðisþjónustu sem myndi bæði bæta heilsu þessa barns og sjálfstraust. Barnið sér jafnvel að jafnaldrar þess fá þessa heilbrigðisþjónustu sem tannréttingar eru, en ekki það sjálft. Barn sem veigrar sér við að brosa. Hugsið ykkur einnig sorg foreldra þessa barns sem vita að þau hafa ekki efni á því að veita barni sínu þessa nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu. Þau hafa ekki efni á því að bæta líf barns síns.“

Ágúst Ólafur segir að óskandi væri að þetta góða mál færi í gegn þó hann sé nú farinn af Alþingi.

Hér má lesa fréttaskýringu Fréttablaðsins.