Agnes er ólétt og sendir neyðarkall: „Ég er gjörsamlega að gefast upp“

„Ég trúi eiginlega ekki að ég sé að gera þetta en svona er staðan,“ segir hin 27 ára gamla Agnes Gróa Jónsdóttir sem sendi neyðarkall frá sér í Facebook-hópnum Leiga í dag.

Ástandið á íslenskum leigumarkaði er erfitt og fyrir því finna margir þessa dagana. Agnes hefur verið að leita sér að íbúð í Hafnarfirði eða Kópavogi undanfarnar vikur en alls staðar komið að lokuðum dyrum. Bendir hún á að gríðarleg eftirspurn sé eftir ódýru leiguhúsnæði og yfirleitt fari þær íbúðir fljótt sem hún falast eftir. Er það ekki síst þar sem leigusalar krefjast hárrar tryggingar sem Agnes á erfitt með að standa undir.

Gengin sex mánuði á leið

„Ég er 27 ára gömul, ófrísk af mínu fyrsta barni gengin 6 mánuði á leið,“ segir Agnes í færslu sinni sem hún veitti Hringbraut góðfúslegt leyfi til að fjalla um. Hún segist koma af brotnu heimili og vera vön því að þurfa að sjá um sig sjálf. Hún þekkir það því af eigin reynslu að eiga ekki sterkt bakland.

„Ég hef bara þurft að redda mér sjálf og sjá um mig sjálf sem ég væli ekki yfir. Ég þekki ekkert annað og hefur mér tekist það nokkuð andskoti vel þangað til núna þegar ég er í fyrsta skipti að biðja um hjálp,“ segir hún.

Agnes er búsett í Keflavík og segir hún að ekkert annað hafi verið í boði fyrir hana á sínum tíma. Þá var hún að missa íbúð sína í Hafnarfirði og þurfti að komast strax í húsnæði.

Margir um plássið

„Núna er ég búin að vera í næstum 2 mánuði að reyna finna íbúð á höfuðborgarsvæðinu, aðallega í Kópavogi eða Hafnarfirði þar sem að ég er bíllaus og alltof einangruð hérna í Keflavík og líður hreinlega illa,“ segir hún. Þá er hún komin með vinnu í Reykjavík og vill helst komast á höfuðborgarsvæðið strax, enda er hún sett 23. febrúar næstkomandi og vill helst sleppa því að standa í flutningum komin á steypirinn.

„Ég er gjörsamlega að gefast upp þar sem að ég labba á veggi alls staðar! Ég ligg inni á leigusíðum, er að senda og senda á fólk með íbúðir sem eru undir 200.000 á mánuði, það eru yfirleitt 20+manns þá búnir að sækja um og trygging yfirleitt 300-600 þúsund sem er upphæð sem ég hvorki á né kemst í,“ segir hún.

Þá bætir hún við að einhverjir virðist hræðast það að hún er með áberandi húðflúr á sér. Þeir sem hana þekkja viti þó að hún er snyrtipinni og alltaf átt fallegt heimili, enda skiptir það hana miklu máli.

Alveg að falla á tíma

Hún segist hafa gengið svo langt að fara á fund með bæjarstjóranum í Hafnarfirði og aðstoðarmanni hennar, en sá fundur hafi ekki skilað miklu. Henni hafi verið bent á að til væru einstaklingar sem þyrftu að sofa í bílnum sínum.

„Ég er búin að tala við Barnaverndarnefnd, félagsráðgjafa hér og þar, menn sem eiga leigufélag, ALLT, það virðist engin geta hjálpað mér með íbúð eða aðstoðað mig. Ég geng um gólfin heima hjá mér þar sem að ég er að falla á tíma og vil ekkert meira en öruggt húsnæði fyrir mig og dóttir mína sem fer að koma í heimin.“

Agnes hvetur fólk til að hafa hana í huga ef það veit um litla sæta íbúð, helst í Hafnarfirði, Kópavogi eða Garðabæ sem leyfir tvær kisur sem fylgja henni og eru henni allt.