Agnes Braga: „Ég hef sjaldan verið eins fegin að komast frá nokkrum stað“

Agnes Bragadóttir, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, er í býsna skemmtilegu viðtali í nýjasta tölublaði Þjóðmála. Agnesi þekkja margir enda var hún áberandi í fréttaskrifum fyrir Morgunblaðið í þau 35 ár sem hún starfaði þar. Þar áður starfaði hún á Tímanum.

Í viðtalinu fer Agnes um víðan völl og rifjar upp eina eftirminnilegustu ferðina sem hún fór í sem blaðamaður. Það var árið 1983 þegar Þórarinn Þórarinsson, ritstjóri Tímans, fékk boð um að heimsækja Norður-Kóreu í tilefni þess að 30 ár voru þá liðin frá lokum Kóreustríðsins.

Agnes fór í ferðina til höfuðborgarinnar Pyongyang og var eini fulltrúi íslenskra fjölmiðla á staðnum. Óhætt er að segja að ferðin hafi verið eftirminnileg enda hitti hún Kim Il-sung, þáverandi leiðtoga Norður-Kóreu og afa núverandi leiðtoga, Kim Jong-un.

„Þetta var eftirminnileg ferð en um leið óhugnanleg. Þó að þeir hafi reynt að draga upp glansmynd fyrir erlendu blaðamennina sá maður vel fátæktina og hungursneyðina en um leið skoðanakúgunina sem þar var viðhöfð og reyndar enn í dag. Fólkið í landinu var algjörlega heilaþvegið af meintum afrekum leiðtogans og það var varla sögð setning af þess hálfu án þess að minnast á okkar mikla og vitra leiðtoga sem hafði gert hitt og þetta, reist heilu mannvirkin og þannig mætti áfram telja. Ég hef sjaldan verið eins fegin að komast frá nokkrum stað,“ segir hún í viðtalinu.