Agnes biskup grét inni í sér svo árum skipti: Opnar sig um skilnað og kynferðislega áreitni

Agnes M. Sigurðar­dóttir, biskup Ís­lands, segist vel þekkja til kyn­ferðis­of­beldis á eigin skinni og minnist þar bæði and­legs og líkam­legs á­reitis frá því hún var að hefja sinn prest­skap um og upp úr 1980, hafi jafn­vel verið hund­elt í þessu til­liti, en karl­remban og tóm­læti feðra­veldisins í seinni tíð hafi líka birst henni oft í biskups­em­bætti.

Hún kemur svo sannar­lega til dyranna eins og hún er klædd í hispurs­lausu og per­sónu­legu sam­tali við Sig­mund Erni í við­tals­þættinum Manna­máli sem frum­sýndur verður annað kvöld á Hring­braut. Þar rifjar hún meðal annars upp sér­stök æsku­árin í mið­bænum á Ísa­firði, á heimili föður síns, sóknar­prestsins Sigurðar Kristjáns­sonar sem stóð vaktina á vo­veif­legum tímum tíðra sjó­slysa, en svo oft knúði dauðinn dyra á heimilinu að Agnes af­réð snemma í æsku að gerast aldrei prestur, að minnsta kosti ekki i sjávar­plássi. En sú varð samt raunin; hún og maðurinn hennar, þá­verandi, flutti í Bolungar­vík – og skömmu seinna dundu ó­sköpin yfir; snjó­flóðin í Súða­vík og á Flat­eyri, árið sem allt breyttist vestra. Og hún minnist barnanna sinna þriggja frá þessum tíma undir vest­firskum fjöllum, en vikum saman eftir bæði flóðin spurðu þau að kvöld­lagi, mamma, munum við deyja í nótt?

Hún talar opin­skátt um skilnaðinn við eigin­mann sinn og barns­föður fyrir hart­nær aldar­fjórðungi, hún hafi grátið inni í sér svo árum skipti – og þessu hafi fylgt svo ó­skap­lega mikil skömm fyrir sóknar­prestinn í plássinu að hún hafi átt erfitt með að þjónusta bæjar­búa.

Og hún talar um trúna, þá mikil­vægu and­legu næringu sem hún er, ekki síst á mót­drægum tímum – og ræðir líka erindi sitt á biskups­stóli, að leggja rækt við mann­réttindi fyrir fólk af öllum kynjum og þjóð­ernum, því kirkjan eigi ekki að þjóna fólki af því að það er kristið, heldur af því að þjónar hennar eru kristnir.

Manna­mál byrjar klukkan 20:00, öll fimmtu­dags­kvöld á Hring­braut