Aftur krotað yfir hin­segin fána Grafar­vogs­kirkju – Kirkjan svarar fullum hálsi

Aftur var krotað yfir hin­segin fána á tröppum Grafar­vogs­kirkju í gær. Þetta kemur fram á Face­book síðu Grafar­vogs­kirkju.

„Núna var það textinn LEVITICUS 20:13, sem er til­vitnun í 3. Móse­bók í Biblíunni, þar sem segir: ,,Leggist karl­maður með karl­manni eins og þegar lagst er með konu fremja þeir báðir viður­styggi­legt at­hæfi. Þeir skulu báðir líf­látnir. Blóð­sök þeirra skal koma yfir þá"

Grafar­vogs­kirkja bendir við­komandi vin­sam­legast um að lesa alla biblíuna og minnir fólk á að í sama kafla er fullt af boð­skap sem á ekkert erindi í dag.

„Í sama kafla eru líka ýmis á­kvæði um að líf­láta skuli fólk fyrir aðrar sakir, s.s. að ,,bölva föður sínum eða móður", einnig á að líf­láta fólk sem sefur hjá ein­hverjum tengdum sér, t.d. mági eða tengda­dóttur og ef karl­maður sefur hjá konu á blæðingum, á að líf­láta þau bæði.

Við í Grafar­vogs­kirkju kjósum frekar að fylgja boð­skap Jesú Krists, sem sagði okkur að elska hvert annað. Við trúum því að hver einasta manneskja sé elskuð sköpun Guðs sem hefur leyfi til að lifa því lífi sem henni/háni/honum er á­skapað.

Boð­skapur Jesú Krists er í fullu sam­ræmi við mann­réttinda­yfir­lýsingar, og við í Grafar­vogs­kirkju stöndum með mann­réttindum og berjumst gegn hatri og for­dómum,“ segir í færslu Grafar­vogs­kirkju.