Ævinlega þakklát fyrir föður sinn: „Erfitt að lesa ódýrt persónuníð um hann“

Nanna Elísa Jakobsdóttir hefur skrifað hjartnæmt bréf um föður sinn, Jakob Bjarnar Grétarsson, og birt það á Facebook.

Jakob Bjarnar er blaðamaður á Vísi og stendur ekki á skoðunum sínum og er umdeildur meðal ýmissa hópa í samfélaginu.

„Hann hefur staðið með mér í gegnum súrt og sætt og er til staðar fyrir mig á nóttu sem á degi. Ég hef ófáum sinnum leitað til hans í algjöru uppnámi á lífsins göngu og mætt takmarkalausum skilningi,“ skrifar Nanna Elísa.

„Hann hefur kennt mér að standa með sjálfri mér, hafa trú á eigin getu og taka lífinu ekki of hátíðlega. Hann er gagnrýninn og hvetur mig til þess að hugsa sjálfstætt. Svo er hann einstakur afi, alltaf til í að passa og knúsa lítinn dúllustrák sem sér ekki sólina fyrir afa sínum.“

Þá víkur hún að honum sem opinberri persónu. „Það er stundum erfitt að lesa ódýrt persónuníð um hann á netinu en þá er gott að finna á sama tíma fyrir stolti yfir því að hann þori (og nenni) að taka erfiðar umræður í samfélagi þar sem fólk er stundum raunverulega óttaslegið að segja sína skoðun í ákveðnum málum.“