Ævar þakklátur eftir undarlegar vikur: Hjartað stoppaði í sex sekúndur eina nóttina

„Ég er afskaplega þakklátur heilbrigðisstarfsfólkinu sem annaðist mig. Þar er allt upp á tíu,“ segir Ævar Austfjörð sem vakið hefur athygli hér á landi fyrir að borða einungis dýraafurðir.

Síðustu dagar hafa verið nokkuð óvenjulegir hjá Ævari því um miðjan maímánuð kom babb í bátinn hjá honum. Ævar var í Landeyjahöfn mánudaginn 17. maí síðastliðinn að búa sig undir ferð til Vestmannaeyja þegar hann varð var við skyndilegar sjóntruflanir.

Ævar segir að þær hafi lýst sér þannig að hann missti um það bil hálft sjónsviðið og sá í raun ekkert sem var til hægri við hann.

Vissi heimilisfangið en gat ekki sagt það

„Ég var eitthvað að tala við Ásu mína og sá ekki nema hálft andlitið á henni. Mig grunaði strax að þetta gæti verið eitthvað eins og blóðtappi og gúgglaði einkenni en gat þá ekki lesið allar setningarnar því ég komst ekki alla leið til hægri í lestrinum. Þegar ég svo hringdi í 112 átti ég í vandræðum með að gefa upp heimilisfangið mitt. Ég vissi það og sá það fyrir mér en gat bara ekki sagt það í smá stund.“

Ævar segir frá því í færslu á Facebook-síðu sinni, sem hann veitti Hringbraut góðfúslegt leyfi til að endurbirta, að eiginkona hans hafi ekið honum á bráðamóttökuna á Selfossi eftir samtal við Læknavaktina.

„Þar var ég strax skoðaður hátt og lágt og mér sagt að þetta væri mjög líklega eitthvað sem kallast TIA, eða blóðþurrð í heila. Einkenni voru að mestu gengin til baka þegar ég kom á Selfoss og ég var útskrifaður eftir nokkrar mælingar nokkrum klukkutímum seinna og sagt að haft yrði samband við mig vegna frekari rannsókna.“

Fór í vinnu daginn eftir

Ævar kveðst hafa farið til vinnu strax daginn eftir enda ekki fundið fyrir neinu. Þann sama dag var þó haft samband við hann frá taugadeild Landspítalans þar sem hann var beðinn um að mæta seinna sama dag í viðtal og frekari rannsóknir.

„Þar var hengdur á mig hjartasíriti sem ég hafði í 2 sólarhringa og tekið úr mér blóð og mér sagt að mæta á hina ýmsu staði til frekari rannsókna næstu daga. Ég er sem sagt búinn að fara í allskonar sjónpróf og sjónsviðsmælingar, röntgen á heila og hálsæðum. hjartaómskoðun gegnum vélinda, MRI-skanna á heila,“ segir Ævar og bætir við að sennilega sé hann að gleyma einhverju.

En rannsóknirnir urðu til þess að í ljós kom að opið er á milli hjartaloka hjá honum og einkennin sem hann fann fyrir mánudaginn 17. maí voru litlir blóðtappar sem ollu blóðþurrð í heila. Hann segir að læknum hafi grunað að um gáttatif væri að ræða og það væri að valda þessum blóðtöppum. En þrátt fyrir grunsemdir þess efnis fannst ekkert gáttatif.

„Það sem fannst hins vegar var að það virðist vanta eitthvað upp á raftaugaboð til hjartans eða í hjartanu sem gerir það að verkum að hjartað á það til að hvíla sig. Helst á nóttunni virðist vera. Það sem sagt á það til að hægja á sér og jafnvel stoppa í smá stund,“ segir Ævar sem var boðaður til innlagnar á hjartadeild Landspítalans síðasta laugardag þar sem frekari rannsóknir fóru fram.

Hjartað stoppaði í 6 sekúndur

„Mér var sagt að eina nóttina nóttina hafi hjartað stoppað í 6 sekúndur og fyrstu nóttina eftir að ég lagðist hér inn í hjartasírita fór púlsinn niður í 24 slög á mínútu! það sem sagt sló bara á rétt rúmlega 3 sekúndna fresti,“ segir Ævar og bætir við að þetta geti verið hættulegt og leitt til þess að púlsinn verði hreinlega of hægur eða pásan of löng. Eigandi hjartans, ef svo má segja, sofni svefninum langa.

„Þetta er vel þekkt en orsök er ókunn skilst mér. Gæti þess vegna hafa verið svona frá fæðingu án óþæginda. Það er einfalt að laga þetta með gangráð og einn slíkur var settur í mig í dag,“ segir Ævar í færslunni sem hann birti í gær.

Ekki við mataræðið að sakast

Hann kveðst þakklátur fyrir að hafa fengið þessa litlu blóðtappa því annars hefðu umræddar rannsóknir ekki farið af stað.

„Ég velti því svo fyrir mér hvort ég hefði ekki fengið þessa blóðtappa ef ég hefði ekki hætt að taka blóðþynningarlyf fyrir nokkrum árum. En ég er afskaplega þakklátur heilbrigðisstarfsfólkinu sem annaðist mig. Þar er allt upp á tíu. Maturinn hér er góður en ekki í takt við mínar óskir þannig að Ása sá um að fóðra mig,“ segir Ævar.

Hann deildi færslu sinni í Facebook-hóp sinn Iceland Carnivore Tribe-kjötætur þar sem hann tók skýrt fram að þessi einkenni hefðu ekkert með mataræði hans að gera. Læknar viti af mataræði hans og þeir hafi ekki haft neitt út á það að setja.

„Ég ligg á þriggja manna stofu með tveimur snillingum sem fæddir eru 1933 og 1932. Í öllu þessu ferli hefur mér aldrei liðið eins og ég sé veikur enda blóðtapparnir vægir og lítil sem engin eftirköst. Ég hef ekki fundið neitt fyrir þessari leti í hjartanu og það aldrei haft áhrif,“ segir Ævar sem verður líklega útskrifaður í dag. Hann þarf þó að hafa hægt um sig í einhvern tíma en vonar að hann verði kominn á fullt fljótt aftur.

„Ég vissi vel að ég væri vel kvæntur en hún Ása mín sýndi það og sannaði í þessum aðstæðum að hún á fáa sér líka og enginn er betri,“ segi