Ætlaði að spara 2,6 milljónir - fékk 6 milljón króna sekt í hausinn

14. janúar 2021
14:15
Fréttir & pistlar

Í vikunni féll dómur í Héraðsdómi Reykjaness gegn konu sem flutti Land Rover-jeppa til landsins frá Bretlandi um mitt ár 2019. Jeppinn var af gerðinni Land Rover Defender 90 Td Xs, árgerð 2015, og var konunni gefið að sök að hafa gefið upp rangt kaupverð á bílnum ytra. Þannig kom fram í tollskýrslum að kaupverð bílsins hafi verið um 3,5 milljónir króna en eftir umfangsmikla rannsókn lögreglu töldu yfirvöld sig hafa sannanir fyrir því að kaupverðið hefði verið um 6,3 milljónir króna.

Rúmlega 6 milljón króna sekt

Þar með komst konan hjá því að greiða aðflutningsgjöld upp á rúmar 2,6 milljónir króna fyrir bílinn. Héraðsdómur féllst á rök saksóknarfulltrúa Lögreglustjórans á Suðurnesjum og dæmdi konuna til að greiða sekt upp á 5,2 milljónir króna auk 800 þúsund króna málsvarnarlaun verjanda síns.

Þegar bifreiðin kom til landsins framvísaði konan öllum nauðsynlegum skjölum og þar á meðal kvittun fyrir kaupverðinu uppá áðurnefndar 3,5 milljónir króna.

Vökull starfsmaður tollstjóra taldi kaupverðið of lágt og upphófst þá umfangsmikil rannsókn málsins.

Þrátt fyrir að konan hafi sent kvittun úr heimabanka sínum fyrir greiðslunni og haldið því fram að hún hafi fengið afslátt af bílnum útaf því að hann hafi verið lengi á sölu þá kafaði lögregla dýpra.

Í ljós komu tvær erlendar greiðslur úr heimabanka konunnar um það leyti sem bifreiðin var keypt. Fyrst 3,6 milljón króna millifærsla bílsölunnar bresku og viku síðar önnur 2,6 milljón króna millifærsla.

Þá fékkst einnig reikningur frá breskum tollayfirvöldum sem að sýndi að kaupverð bifreiðarinnar hefði verið um 6,3 milljónir króna. Konan kom að fjöllum varðandi þann reikning.

Hún neitaði staðfastlega sök í málinu en Héraðsdómur var á öðrum máli eins og áður segir. Hér má kynna sér dóminn.