Adolf Ingi: „Ég var ekki spurður“ – Glóru­laust að hækka laun í þessu á­standi

„Vissu­lega er sárt að gefa eitt­hvað eftir sem barist hefur verið fyrir, en menn verða að gera sér grein fyrir því að ef mjólkur­kýrin er svelt til dauða fást ekki mikil nyt úr henni,“ segir Adolf Ingi Er­lings­son, fyrr­verandi í­þrótta­frétta­maður og ferða­þjónustu­starfs­maður, í að­sendri grein sem birtist í Frétta­blaðinu í dag.

Adolf Ingi bendir á að at­vinnu­lífið hafi lamast að miklu leyti í vor þegar heims­far­aldurinn skall á. Í einu vet­fangi hafi heyrst raddir þess efnis að fresta ætti fyrir­huguðum launa­hækkunum þar til úr rættist.

„Verka­lýðs­for­ystan, öll sem ein, þver­tók fyrir þessar hug­myndir og sló þær um­svifa­laust út af borðinu. Hækkanir sem samið hafði verið um í hinum svo­kallaða Lífs­kjara­samningi við allt aðrar að­stæður rúmu ári fyrr skyldu taka gildi hvað sem tautaði og raulaði,“ segir Adolf Ingi.

Hann bendir á að nú sé ljóst að á­hrifa far­aldursins mun gæta mun lengur en vonast var til í vor og því hafi á ný komið fram hug­myndir um að fresta fyrir­huguðum launa­hækkunum.

„Og enn þver­taka for­ystu­menn stéttar­fé­laganna fyrir að það verði gert. Í um­boði hverra, spyr ég. Vissu­lega voru samningarnir sam­þykktir með at­kvæða­greiðslu launa­fólks á sínum tíma, en síðan þá hafa for­sendur ger­breyst. Heilu at­vinnu­greinarnar hafa nánast þurrkast út og tug­þúsundir misst vinnuna,“ segir Adolf Ingi og bætir við:

„Ég var ekki spurður að því í vor hvort ég vildi fresta launa­hækkunum til að létta fyrir­tækinu sem ég vann hjá róðurinn. Mér fannst út í hött að fá launa­hækkun um leið og fyrir­tækinu blæddi út og var nánast tekju­laust. Nær hefði verið að semja um tíma­bundna launa­lækkun til að auka líkurnar á því að fyrir­tækið héldi lífi og ég héldi vinnunni. Vissu­lega er sárt að gefa eitt­hvað eftir sem barist hefur verið fyrir, en menn verða að gera sér grein fyrir því að ef mjólkur­kýrin er svelt til dauða fást ekki mikil nyt úr henni.“

Adolf Ingi bendir á að vissu­lega sé enn at­vinnu­greinar og fyrir­tæki sem blómstra, en sam­kvæmt al­mennum mæli­kvarða sé skollin á kreppa sem sér ekki fyrir endann á.

„Það eru til fyrir­tæki sem þola alveg að greiða hærri laun, en stór hluti þeirra er ekki í stakk búinn til þess. Og að hækka laun hjá því opin­bera nú er bara að pissa í skóinn sinn við þessar að­stæður þar sem ríkis­sjóður er rekinn með bullandi tapi til að reyna að halda uppi at­vinnu­stigi og grynnka með því kreppuna.“

Adolf Ingi endar grein sína á þeim orðum að nú sé mikil­vægt að allir rói í sömu átt.

„Ég legg til að verka­lýðs­leið­togar sem þurfa ekki að hafa miklar á­hyggjur af því að launa­greið­endur þeirra leggi upp laupana kanni hug fé­lags­fólks síns til þess hvort það vilji frekar fresta fyrir­huguðum hækkunum eða standa stíft á þeim og auka þar með líkurnar á því að það verði at­vinnu­laust.“