Að­gerðir mótist í æ ríkari mæli af „sér­kenni­legri sýn nokkurra stjórn­mála­manna á það hvernig verð­mæti verða til“

8. ágúst 2020
18:50
Fréttir & pistlar

Jóhann Páll Jóhanns­son, blaða­maður á Stundinni, segir það á­hyggju­efni hvernig sótt­varnar­á­herslur yfir­valda virðast undan­farna mánuði hafa mótast æ meira af sérkennilegri efna­hags­pólitík ríkis­stjórnarinnar. Þetta kemur fram í Face­book status blaða­mannsins.

Þar bendir hann á að Alma Möller, land­læknir, hafi bent á það á upp­lýsinga­fundi dagsins í dag að til­slakanir á landa­mærum hafi verið að frum­kvæði ríkis­stjórnarinnar og þjónað efna­hags­legum mark­miðum.

„Að­spurð hvort sér­stak­lega hefði verið litið til stöðu Ís­lands sem ey­ríkis og sótt­varnar­að­gerða annarra eyja við landa­mæri, t.d. Nýja Sjá­lands, svaraði hún: „Við auð­vitað horfum á mjög marga þætti, en það sem er með Nýja Sjá­land og mér hefur skilist, er að ferða­mennska er ekki eins stór hlut­deild af efna­hag þess lands eins og hjá okkur, þannig það örugg­lega kemur ekki eins illa við þá að hafa þessar hörðu að­gerðir,“ skrifar Jóhann.

Hann bendir á að það sé samt þannig að ferða­þjónustan er líka sú at­vinnu­grein í Nýja Sjá­landi sem skili mestum útlfu­tnings­tekjum.

„Ef efna­hags­legir þættir og jafn­vel stærð til­tekinnar at­vinnu­greinar á að ráða úr­slitum um það hve langt er gengið í sótt­varnar­ráð­stöfunum við landa­mæri, hefði þá ekki mátt vinna heild­stæða greiningu á hag­rænum á­hrifum og á­hættu­þáttum og taka á­bendingar hag­fræðinga eins og Gylfa Zoëga og Þór­ólfs Matthías­sonar al­var­lega?“

Hann segir það ekki síst á­hyggju­efni hvernig sótt­varnar­á­herslur virðast undan­farna mánuði hafa mótast æ meira af efna­hags­pólitík ríkis­stjórnarinnar „í ljósi þess að ráð­herrar virðast hvorki skilja upp né niður í því hvernig gang­verk efna­hags­lífsins og ríkis­fjár­mál virka.“

Blaða­maðurinn tekur nokkur dæmi:

„Þór­dís Kol­brún ferða­mála­ráð­herra segir í Mogganum í dag að við þurfum á „öllu því að­haldi sem við getum beitt í ríkis­fjár­málum“ að halda til að komast út úr kreppunni. Þetta er 19. aldar hag­fræði, upp­skrift að lang­varandi kreppu og eymd. Bjarni Bene­dikts­son talar á sama veg og hélt því ný­lega fram í Kjarna­við­tali að fram­tíðar­kyn­slóðir myndu erfa það við stjórn­mála­menn dagsins í dag að reka ríkið með halla og taka lán frekar en að balansera bækurnar hratt.

Sigurður Ingi sam­göngu­ráð­herra er á­líka ráð­villtur, mætti í fjöl­miðla fyrir nokkrum dögum og hélt því fram að ríkis­sjóður myndi spara helling með því að láta einka­aðila fjár­magna vega­fram­kvæmdir þegar reynslan hvarvetna sýnir fram á hið gagn­stæða, enda lána­kjör einka­aðila lakari og þar með fjár­magns­kostnaður meiri en hjá ríkinu.

Eins og Gylfi Magnús­son bendir á: „Þessi leið [PPP-leiðin, sam­vinnu­verk­efni/einka­fram­kvæmd] gerir ekkert annað en að auka flækju­stig og yfir­byggingu og gera fjár­mögnun dýrari.“
Þór­dís Kol­brún var innt eftir við­brögðum við gagn­rýni Gylfa Zoëga á landa­mæra­tils­lakanir á RÚV.is í dag og sagði: „Það er líka erfitt fyrir mig að vera sam­mála því að, af því að við erum með þessa sjálf­virku sveiflu­jafnara í okkar kerfum, að þá séum við að tryggja eftir­spurn þegar hún kemur úr sam­eigin­legum sjóðum þegar fólk hefur ekki vinnu.“

Á að ætlast til þess að Gylfi eða aðrir eyði tíma sínum í að svara svona dellu?“ spyr blaða­maðurinn og heldur á­fram:

„Þetta er staðan. Að­gerðir virðast í æ ríkari mæli hafa mótast af, ekki efna­hags­legum sjónar­miðum al­mennt, heldur ein­hverri mjög þröngri og sér­kenni­legri sýn nokkurra stjórn­mála­manna á það hvernig verð­mæti verða til og hag­kerfi virka í stað þess að ráðist væri í heild­stætt mat á hag­rænum á­hrifum og á­hættu­þáttum þar sem horft væri til allra at­vinnu­greina, fé­lags­legra þátta og grunn­kerfanna sem við eigum svo mikið undir því að geti virkað með til­tölu­lega eðli­legum hætti.“