Aðgát skal höfð í nærveru Bjarna

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, virðist vera að missa „kúlið“ eins og sagt er. Hann hefur hagnast á því að vera oft á tíðum yfirvegaður en þarna tókst það ekki. Er það skrítið? Nei, það er fullkomlega mannlegt því hann er að fást við allt of mörg neikvæð mál: Veiruskrattinn mæðir á forystunni, þingflokkur hans er klofinn og ekki getur verið skemmtilegt fyrir formann Sjálfstæðisflokksins er vera eins konar húskarl í ríkisstjórn formanns sósíalista. Bjarni ber ábyrgð á því að hafa fært formanni sósíalista stöðu forsætisráðherra á Íslandi í fyrsta sinn. Og það sem meira er og verra: Hann studdi það að Steingrímjur J. Sigfússon yrði forseti Alþingis. Steingrímur er maður sem hefur beinlínis hatast við Sjálfstæðisflokkinn og forystumenn hans - nema Bjarna.

Til orðahnippinga kom í þinginu í líðandi viku. Þá vændi Bjarni formann Viðreisnar um „þvætting“ úr ræðustól Alþingis. Þingmenn og ráðherrar misstu sig í óviðunandi skítkasti sín á milli. Það er fyrir neðan virðingu þeirra. Þjóðin gerir meiri kröfur til þessa fólks. Annars hljóta kjósendur að nýta fysta tækifæri til að skipta þeim út og reyna að fá eitthvað betra og yfirvegaðra fólk í staðinn. Næg er nú eftirspurnin eftir örygginu og hlýjunni á Alþingi þegar atvinnuleysi og vandræði skekja þjóðfélagið fyrir utan múra Alþingis.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingar, hefur vægast sagt verið að varpa vondu ljósi á sjálfan sig að undanförnu. Hann var með yfirlýsingar um „stál í stál“ á Alþingi vegna umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis á fram komnum tillögum um breytingar á stjórnarskrá Íslands. Ekki virðist samstaða um breytingar en forsætisráðherra hefur sagt of mikið um málið í fjölmiðlum og stendur nú fáliðuð á víðavangi þingsins. Hún hefur ekki flokk sinn að baki sér. Katrín ætlar bara að flytja breytingartillögur í þinginu  um stjórnarskrána í eigin nafni - sem þingmaður. Ekki sem forsætisráðherra eða formaður í minnkandi stjórnmálaflokki. Logi þarf ekki að vera með stríðsyfirlýsingar. Málið virðist sjálfdautt í höndum Katrínar Jakobsdóttur.

Alþingis bíður að afgreiða fjárlög. Það verkefni er ávalt hin mesta pína fyrir fjármálaráðherra hverju sinni. Sjaldan sem nú. Hallin á ríkissjóði verður um 300 milljarðar árið 2020 og vænta má svipaðrar niðurstöðu á komandi ári. Fjármálaráðherra er ekki með neinar nothæfar lausnir. Það er ekki boðlegt að safna bara risaskuldum sem þarf að borga í framtíðinni með skattainnheimtu. Nú þarf að sýna þá ábyrgð og kjark að skera niður í ríkisrekstri og selja hluta af þeim ríkiseignum sem ekki er nauðsynlegt að ríkissjóður eigi.

Ekkert bendir til þess að Bjarni eða Sjálfstæðisflokkurinn muni standa fyrir því.

Framundan eru þungir dagar innan ríkisstjórnarinnar. Fjölmiðlar velta því upp hvort komið sé að leiðarlokum. Þorir einhver að slíta, þorir einhver að fara?

Þorir einhver að bíða eftir þeim örlögum sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hlaut vegna þess að hún sat sundurlaus og valdalaus síðasta sprettinn bara til að halda út. Það var dýrt. Minnstu munaði að Samfylkingin félli út af þingi í kjölfarið og Vinstri græn hefðu fallið úr af Alþingi ef Steingrímur Sigfússon hefði ekki vikið fyrir Katrínu Jakobsdóttur sem formaður. Það dugði þá til að stöðva fylgishrunið og flokkurinn hélst inni á þingi.

Fylgi Vinstri grænna er nú komið niður í 7,5 prósent en var 16,9 prósent í síðustu kosningum.

Það er því eðlilegt að spurt sé hvort VG falli út af þingi næst?