Að minnsta kosti 116 smit í gær: Aldrei fleiri í einangrun

Mikill fjöldi smita vegna COVID-19 heldur áfram að greinast hér á landi en að minnsta kosti 116 manns greindust með veiruna í gær. Aldrei hafa fleiri verið í einangrun og fjölgar þeim stöðugt milli daga en 1329 er nú í einangrun og 1941 í sóttkví.

14 daga nýgengi smita heldur einnig áfram að hækka og er nú tæplega 395 á hverja 100 þúsund íbúa en það þýðir að Ísland verði rautt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem kemur út á morgun. Þá hafa Bandaríkin og Ísrael einnig flokkað Ísland sem rautt land.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær greindi Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir að Íslendingar væru að glíma við stærstu bylgju faraldursins hingað til og sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að ljóst væri að hámarkinu væri enn ekki náð.

Núverandi reglugerð um gildandi samkomutakmarkanir tók gildi fyrir einni og hálfri viku og mun þessi vika sýna hvort þær aðgerðir bera árangur. Þórólfur hefur sjálfur gefið það út að hann muni ekki skila inn minnisblaði um áframhaldandi aðgerðir eftir 13. ágúst heldur liggi boltinn hjá ríkisstjórninni.

Sérstaklega verður fylgst með hversu margir veikjast alvarlega en að sögn Þórólfs eru aðeins um eitt prósent bólusettra sem þurfa að leggjast inn á spítala. Hækki sú tala ekki mikið á komandi dögum þurfi að meta stöðuna svo hægt sé að lifa með faraldrinum.

Hægt er að finna tölur síðustu daga hér fyrir neðan.