„Að elska og vera elskaður er það eina sem skiptir máli": Steinunn Ólína minnist Stefáns Karls

Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir minnist Stefáns Karls sem hefði orðið 45 ára í dag. Hún segir hann hafa verið allra manna skemmtilegastur og fyndnastur. Greinin birtist í Kvennablaðinu í dag.

Stefán Karl lést þann 21. ágúst 2018 eftir illvíga baráttu við krabbamein.

„Það eru tæp tvö ár síðan hann dó, en ekki líður sá dagur að ég hugsi ekki til hans, oftar en ekki er það vegna einhvers hversdagslegs sem ég veit að hann hefði fundið ástæðu til að snúa upp í grenjandi fyndið grínatriði."

Hún segist hafa lært mikið af illvígum veikindum hans.

„Í  baráttu Stefáns og töpuðu orrustu var ekkert réttlæti, bara vægðarlaus grimmdin sjálf, en mér hefur líka skilist að það mótlæti sem ég tókst á við með honum kenndi mér svo ótal margt og hefur gert mér kleift að takast á við hlutina óttalaust og af margfalt meiri kjarki en áður. Gjafir er að finna í undarlegustu aðstæðum."

Hann var ákveðin í að halda upp á fimmtugsafmælið.

„Ég man hvernig hann var staðráðinn í því að halda upp á fimmtugsafmælið og bauð endurtekið læknunum sínum í það vonarpartý. Ég man líka eftir svörtum efanum í augnaráði þeirra þótt þau tækju boðinu með þökkum og sorginni sem þau gátu ekki dulið hvernig sem þau reyndu að stappa stálinu í okkur á stundum. Það fór aldrei fram hjá mér þrátt fyrir fagmennskuna hversu erfitt það er fyrir góða lækna að horfa upp á ungt fólk deyja smátt og smátt í höndunum á þeim. "

„Ég sé ekki eftir því, engu hef ég áorkað um daganna sem er lærdómsríkara og gjöfulla. Og ef einhver velkist í vafa hvers vegna við yfirleitt fæðumst þá er svarið: Við erum hér til að vera eins góð og við getum við þá sem þurfa á okkur að halda. Ég hef sagt þetta áður. Að elska og vera elskaður er það eina sem skiptir máli. Allt annað er drasl."