Ábyrgðarleysi leiðir til dauða fyrirtækja

Skelfilegt er að heyra fréttir af kjaradeilu flugmanna hjá SAS sem hafa stöðvað rekstur fyrirtækisins og valdið því ómældu fjártjóni á mjög viðkvæmum tíma.

Eftir að hálaunastéttin flugstjórar gerðu alvöru úr verkfallshótunum sínum og stöðvuðu starfsemi fyrirtækisins fyrir skömmu, hefur SAS þurft að fella niður 2.600 flugferðir. Í dag aflýsir SAS 126 áður áætluðum flugferðum. Talið er að tap félagsins vegna þessa nemi nú um 1.300 milljónum íslenskra króna á degi hverjum. Það er hreint rosalegur fjárhagsskaði.

Vert er að hafa í huga að flugfélög víða um heim urðu fyrir miklum skakkaföllum á tíma veirunnar og þurftu flest að þiggja fjárstyrki frá ríkisstjórnum heimalanda sinna. Það gilti sannarlega um SAS. Vegna fjárstyrkjanna hefur flugfélögum verið gert að sýna aðhald og sparnað í rekstri sínum og þau munu ekki greiða hluthöfum arð á næstu misserum og árum. SAS hefur lengi verið í basli með rekstur sinn og oft þurft að sækja aukið hlutafé til eigenda sinna sem eru ríkissjóðir þriggja Norðurlanda; Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs.

SAS þurfti svo sannarlega á því að halda að geta nýtt tímann vel eftir að veiruvandanum lauk til að efla rekstur sinn og hala inn tekjur til að vega upp á móti miklu tapi vegna heimsfaraldursins á árunum 2020 og 2021. Þá bregður svo við að flugmenn krefjast kjarabóta fyrir sig með hótunum sem á endanum leiddu til rekstrarstöðvunar og öngþveitis hjá SAS eins og að framan greinir.

Hér er um að ræða einkar ósvífna og vanhugsaða aðgerð á viðkvæmum vinnumarkaði. Verkfallið getur hreinlega leitt til þess að SAS verði gjaldþrota. Þá er líklegt að annað stórt flugfélag í Evrópu kaupi eignir þess og réttindi af þrotabúi flugfélagsins. Þá missa allir verkfallsflugmennirnir vinnuna og fá makleg málagjöld vegna ábyrgðarleysis á erfiðum tímum. Ekki nóg með það – allir aðrir starfsmenn SAS missa líka vinnuna vegna ofbeldisaðgerðar flugmanna, hæstlaunuðu stéttarinnar innan hvers flugfélags.

Þessar vondu fréttir leiða hugann að því sem kann að vera framundan á íslenskum vinnumarkaði. Næsta vetur þarf að gera um 300 kjarasamninga og sumir verkalýðsleiðtogar eru þegar farnir að hóta öllu illu. Raunar má vel skilja óánægju verkalýðshreyfingarinnar þegar horft er til þess að Seðlabanki Íslands hefur með glæfralegum og óþörfum vaxtahækkunum aukið útgjaldabyrði meðalheimilis um 100 þúsund krónur á mánuði síðasta árið, á sama tíma og innflutt verðbólga hefur hækkað matar- og eldsneytisreikninginn um tugi þúsunda á mánuði. Hver heldur Seðlabankann að verði áhrif vaxtahækkana hans á kröfugerð verkalýðsforystunnar í haust? Hefur peningastefnunefndin velt þeirri spurningu fyrir sér?

Engu að síður er það galið að dvergþjóðin Ísland þurfi að láta gera 300 kjarasamninga þegar fjöldi íbúa er einungis 370.000. Þetta er út í hött svo engu tali tekur. Löggjafinn þarf að grípa inn í og setja nýja vinnulöggjöf sem tryggir rétt samningsaðila báðum megin borðsins með mun einfaldari og þjálli kjarasamningum.

Vinnulöggjöfin er frá því á síðustu öld og löngu úr sér gengin. Hér verður ríkisstjórnin að taka forystu og greiða úr því endemisástandi sem 300 kjarasamningar í dvergríki geta leitt til. Ríkisstjórnin verður einnig að gera sér grein fyrir því að hún þarf að vinda ofan af axarsköftum peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands og skapa grundvöll fyrir hóflegum kjarasamningum í haust.

Vonandi læra aðilar allir aðilar íslenska vinnumarkaðarins af þeim skelfilegu mistökum sem hafa verið gerð á Norðurlöndunum vegna SAS sem geta fellt flugfélagið. Hver græðir á því? Ekki starfsmenn SAS, eigendur félagsins eða viðskiptavinirnir. Þeir sem græða verða helst þeir sem kunna að kaupa eignir og réttindi félagsins úr þrotabúi. Það er nöturlegt en bæði gömul saga og ný.

- Ólafur Arnarson.