Ábyrgðarlaust hjal um að landsvirkjun eigi að gefa milljarða til auðhrings

Ótrúlegasta fólk tekur undir harmagrát ÍSALS og eigandans Ríó Tintó um að Landsvirkjun eigi að borga taprekstur álversins með því að víkja frá samningi milli þeirra um verð á raforku. Samningurinn var gerður fyrir nokkrum árum og gildir til ársins 2036.

Það væri fásinna að Landsvirkjun færi nú að lækka raforkuverð þó á móti blási tímabundið. Ekki eru dæmi þess að auðhringurinn Ríó Tintó hafi óskað eftir að HÆKKA greiðslur til raforkuseljenda þegar vel hefur gengið og hagnaður skapast. Það ætti að vera öllum ljóst að stóriðja er sveiflukennd, græðir og tapar á víxl.

Meðal þeirra sem hafa með óábyrgum hætti krafið Landsvirkjun um lækkun raforkuverðs er Morgunblaðið. Þann 13. febrúar birti blaðið skrif í Staksteinum þar sem Landsvirkjun og ríkisstjórnin eru krafin um aðgerðir vegna taprekstrar í Straumsvík. Staksteinar eru birtir á vegum ritstjórnar blaðsins og væntanlega með fullri velvild Davíðs Oddssonar.

Fyrr á árum átti Davíð sæti í stjórn Landsvirkjunar og ætti því að vita gjörla hve sveiflukennd stóriðja er. Árið 2014 vildi Davíð verða formaður Landsvirkjunar en sú ráðagerð tókst ekki. Síðan hefur hann haft flest á hornum sér gagnvart fyrirtækinu og forstjóra þess.

Engum heilvita manni dettur í hug að ÍSAL hætti starfsemi. Fyrirtækið hlýtur að mæta tímabundnu tapi með aðhaldi eins og svo margir gera. Reynt verður að fækka í starfsliðinu, skera niður yfirstjórn, semja við ýmsa birgja og síðast en ekki síst hlýtur móðurfélagið Ríó Tintó að lækka eða fella niður ýmsa reiknaða kostnaðarliði sem vega þungt og eru jafnan umdeildir.

Það er yfirstjórn álversins til minnkunar að æpa á ríkispeninga þó tímabundinn rekstrarvandi steðji að.