86 smit greindust í gær: Ekki verið fleiri í 15 daga

Alls greindust 86 kórónu­veiru­smit hér á landi og hafa þau ekki verið fleiri á einum degi síðan 13. Októ­ber síðast­liðinn þegar þau voru 88.

Góðu fréttirnar eru þær að mikill meiri­hluti þeirra sem greindust voru í sótt­kví, eða rúm­lega 70%. Að­eins 24 voru utan sótt­kvíar. Alls eru 58 á sjúkra­húsi núna og einn á gjör­gæslu­deild.

Þetta kemur fram í tölum sem birtust á CO­VID.is nú klukkan 11.

Alls greindist 21 smit á landa­mærunum. Tíu greindust í fyrri skimun, einn í seinni skimun og beðið er niður­stöðu mót­efna­mælingar frá tíu ein­stak­lingum.

Fjór­tán daga ný­gengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa er nú 221 og stendur nánast í stað síðan í gær. Hæst fór það í 291,5 um miðjan októ­ber­mánuð.

Ní­tján ein­staklingar, 90 ára eða eldri, eru nú í ein­angrun vegna CO­VID-19 og 32 ein­staklingar á aldrinum 80 til 89 ára. Lang­fjöl­mennasti hópurinn er sem fyrr hópurinn á aldrinum 18 til 29 ára. 277 ein­staklingar á því aldurs­bili eru í ein­angrun.