45 þúsund umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu

Skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2018 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu, en markmiðið er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar segir enn fremur:

„Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 9.597 tilkynningar um hegningarlagabrot árið 2018. Tilkynningum fjölgaði lítillega á milli ára, eða um tæplega þrjú prósent. Skráðum umferðarlagabrotum fjölgaði umtalsvert árið 2018 miðað við fyrri ár.

Alls voru skráð tæplega 45 þúsund umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2018, en ekki hafa jafn mörg brot verið skráð á einu ári frá því að samræmdar skráningar hófust árið 1999. Langflest umferðarlagabrot voru vegna hraðaksturbrota eða tæp 35 þúsund brot. Umferð á Íslandi hefur aukist gríðarlega síðustu ár með auknu flæði ferðamanna.“