44 prósent í sömu stöðu og eftir hrun

44 prósent fatlaðs fólks búa við mikla fá­tækt og eru í sömu stöðu og árið 2009. Þetta sýnir ný skýrsla vörðu fyrir ÖBÍ að sögn Þuríðar Hörpu Sigurðar­dóttir, formanns Ör­yrkju­banda­lagsins í sam­tali við Stöð 2 í kvöld vegna nýrrar rann­sóknar á högum fatlaðs fólks.

Varða rann­sóknar­stofnun vinnu­markaðarins kynnti niður­stöður hennar í dag. Kom fram að um 80 prósent fatlaðs fólks á erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman og sama hlut­fall hefur neitað sér um heil­brigðis­þjónustu.

„Það kom mér í raun fátt á ó­vart,“ sagði Þuríður um málið í beinni út­sendingu í kvöld­fréttum Stöðvar 2.

„Það er sláandi að þessi skýrsla dregur það skýrt fram að fatlað fólk lifir ekki á líf­eyri trygginga­stofnunar og sýnir mikil­vægi þess að ör­orku­líf­eyrir sé hækkaður,“ segir Þuríður.

Þá segir hún niður­stöðurnar sýna að 44 prósent fatlaðs fólk lifi við mikla fá­tækt og sé í sömu stöðu og það var árið 2009 eftir banka­hrun. „Það hefur ekkert breyst þrátt fyrir mjög mikið hag­vaxtar­skeið,“ segir Þuríður.

„Ein­stæðir for­eldrar og ein­stæðir karlar koma verst út. 90 prósent þeirra ná ekki endum saman,“ segir Þuríður. Það þýði að börn þeirra alist upp í fá­tækt.

Þá segir Þuríður það ekki hafa komið fram áður hve margir meðal fatlaðra þurfa að reiða sig á fjár­hagstoð frá ættingjum og vinum. „Við höfum ekki séð þessa statistík áður. 41 prósent fatlaðs fólks reiðir sig á fjár­hags­að­stoð frá ættingjum og vinum.“