200 þúsund hjól seld á 10 árum

Hjólasalar á Íslandi eru að taka gleði sína, enda fer vorfriðingurinn vaxandi á meðal alls þess fjölda fólks sem stundar hjólreiðar að staðaldri. Búist er við því að hjólasala á þessu ári nái loks sömu hæðum og hún var í fyrir hrun, en þá seldust 28 þúsund hjól á einu ári. Salan dróst saman um þriðjung strax í hruninu en hefur jafnt og þétt verið að aukast á þeim rösku sex árum sem liðin eru frá því Guð var beðinn að blessa Ísland. Ef allur síðasti áratugur er skoðaður kemur í ljós að hjólasala er orðin tvöfalt meiri en bílasala á Íslandi; 206 þúsund hjól hafa verið seld á undanliðnum 10 árum samanborið við tæplega 100 þúsund bifreiðar. Að sögn Mogens Markússonar verslunarstjóra í GÁP, sem er hjólasérfræðingur heilsuþáttarins Lífsstíls á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, er algengt verð á götuhjólum fyrir byrjendur frá 80 til 110 þúsund krónur. Hægt er þó að fá mun dýrari járnfáka og kosta þeir tilkomumestu vel yfir eina milljón króna. Algengt verð á keppnishjólum og þeim hjólhestum sem helst eru teknir til kostanna upp um fjöll og firnindi er í kringum 300 þúsund. Best er þó fyrir byrjendur, segir Mogens, að halda sig við einföld götuhjól með aurbrettum og bögglabera áður en ráðist er í frekari fjárfestingar.