10 magnaðir hlutir sem gerast þegar þú ferð út að labba

Nú þegar sumarið er nánast komið og líkams­ræktar­stöðvar lokaðar – enn þá að minnsta kosti – vegna kórónu­veirufar­aldursins er til­valið að skella sér út og hreyfa sig. Þó margir kjósi að hlaupa eða hjóla geta ein­faldir göngu­túrar hrein­lega gert krafta­verk fyrir heilsu okkar og líðan. Vef­ritið The Acti­ve Times tók saman tíu hluti sem gerast í líkamanum þegar við förum út að labba.

Þú brennir fitu

Það vita það allir að líkaminn þarf að nota orku­forða sinn til að hreyfa sig. Orku­forði líkamans er að lang­mestu leyti í formi fitu þó sykrur séu upp­á­halds­orku­gjafinn enda auð­velt að brenna þeim. Langir göngu­túrar eða göngu­túrar þar sem gengið er rösk­lega geta verið gulls í­gildi fyrir þá sem vilja brenna fitu.

2. Þú eykur efna­skiptin

Á­reynsla er einn af þeim þáttum sem auka efna­skipti líkamans, eða það sem í dag­legu tali er kallað brennsla. Aukinn vöðva­massi er meðal annarra þátta sem geta aukið efna­skiptin. Hraðari efna­skipti geta hjálpað okkur að léttast og veitt okkur aukna orku. Göngu­ferðir, sér­stak­lega þar sem gengið er rösk­lega, fá hjartað til að slá og líkamann til að reyna á sig. Þannig geta göngu­ferðir stuðlað að hraðari efna­skiptum.

3. Þú færð sterkari fætur

Það segir sig sjálft að þeir vöðvar sem við notum styrkjast sam­hliða auknu á­lagi. Göngu­ferðir auka vöðva­þol og vöðva­styrk í fót­leggjum, sér­stak­lega í kálfum og lærum. Þeir sem vilja styrkja fæturna enn frekar ættu að ganga upp brekkur eða tröppur – jafn­vel skella sér í eina fjall­göngu.

4. Hjálpar meltingunni

Göngu­túrar, til dæmis eftir kvöld­mat, örva meltingar­færin okkar sem gerir það aftur að verkum að líkaminn á auð­veldara með að melta matinn sem við borðum. Í rann­sókn frá árinu 2008, sem The Acti­ve Times vísar til, getur ganga stytt tímann veru­lega sem maturinn fer í gegnum meltingar­veginn. Þá hefur önnur rann­sókn sýnt að göngu­ferðir geta stuðlað að lækkun blóð­sykurs.

5. Þú losar spennu

Göngu­ferðir og raunar öll líkam­leg á­reynsla kemur hita í vöðvana okkar. The Acti­ve Times mælir með því að fólk noti hand­leggina þegar það gengur og takir stór skref, líkt og við­komandi sé að teygja á vöðvunum. Það hjálpar líkamanum að losa spennu enda geta teygjur leyst endorfín úr læðingi. Endorfín er stundum kallað vel­líðunar­hor­mónið.

6. Þú færð D-víta­mín!

Við Ís­lendingar fáum ekki nóg af D-víta­míni enda lítil dags­birta á norður­hjara veraldar yfir há­veturinn. Við myndum D-víta­mín í húðinni út frá sólar­ljósi og því er um að gera að fara út að ganga meðan birtu nýtur við. Sólar­ljósið er ekki eina upps­retta D-víta­míns en það má einnig finna í lýsi, fiski og auð­vitað D-víta­mín­bættum mjólkur­vörum.

7. Þú minnkar streitu

Göngu­ferðir geta haft góð á­hrif á and­lega heilsu okkar, ekki síður en þá líkam­legu. Það hefur verið sýnt með vísinda­legum hætti að göngu­ferðir geta minnkað magn streitu­valdandi hormóna í líkamanum.

8. Þú sefur betur

Ef þú átt erfitt með svefn geta göngu­ferðir gert krafta­verk. Sam­kvæmt rann­sóknum getur hreyfing, þar með taldir göngu­túrar, ýtt undir fram­leiðslu á mela­tóníni sem stundum er kallað svefn­hormónið.

9. Þú styrkir hjartað

Göngu­ferðir eru ein auð­veldasta og árangurs­ríkasta að­ferðin til að styrkja hjartað. Þú reynir vissu­lega á hjartað þegar þú hreyfir þig sem aftur eykur blóð­flæðið um líkamann. Allt þetta stuðlar að betri heilsu og heil­brigðara hjarta.

10. Þú kemst í betra skap

Eins og kemur fram hér að framan getur hreyfing stuðlað að fram­leiðslu á endorfíni. Endorfínið er stundum kallað vel­líðunar­hor­mónið og þegar okkur líður vel erum við yfir­leitt í þokka­lega góðu skapi. The Acti­ve Times vísar í rann­sókn sem sýndi fram á að starfs­menn í ó­nefndu fyrir­tæki, sem tóku 30 mínútna göngu­ferð í há­deginu, voru miklu orku­meiri og af­kasta­meiri þegar þeir sneru aftur til vinnu eftir göngu­túrinn.